Kæru fulltrúar framboða til Alþingis 2024

landlif2022FréttirLeave a Comment

Íbúasamtök og framfarafélög gegna lykilhlutverki í að efla lýðræði, styrkja samfélög og bæta lífsgæði íbúa um allt land. Samtökin Landsbyggðin lifi (LBL) hafa leitast við að vera leiðandi í þessu starfi meðal annars með því að tengjast alþjóðlegu samstarfi og standa fyrir málþingum og verkefnum sem miða að aukinni virkni og þátttöku íbúa í
samfélagsmálum.

LBL er aðili að Hela Norden ska Leva (HNSL), regnhlífarsamtökum íbúasamtaka á Norðurlöndum, sem stuðla að samvinnu og þekkingarmiðlun milli landa. Auk þess er LBL aðili að European Rural Community Alliance (ERCA), sem stendur meðal annars að Evrópska dreifbýlisþinginu European Rural Parliament (ERP), vettvangi þar sem framfaramál dreifbýlis eru rædd og þróuð. Í gegnum þessa samstarfsaðila hafa samtökin fylgst með nýjungum og framfaramálum á alþjóðavettvangi sem gætu gagnast íslenskum byggðalögum.

Þrátt fyrir mikilvægi þessa starfs hefur skortur á fjármagni oft staðið í vegi fyrir frekari virkni samtakanna. Með fjárstuðningi væri hægt að:

  • Styrkja lýðræðislega þátttöku íbúa með því að halda regluleg íbúaþing og málþing sem skapa vettvang fyrir íbúa að hafa áhrif á ákvarðanir sem snerta samfélög þeirra.
  • Auka þekkingu og framkvæmdarhæfni íbúa til að nýta sér rétt sinn til þátttöku í stjórnsýslu og samfélagsmótun.
  • Efla samstarf við stjórnvöld til að tryggja að raddir íbúa heyrist í stefnumótun og skipulagsmálum.

Dæmi um verkefni og viðburði sem hafa skipt máli:

  • Landsbyggðin lifi hefur staðið fyrir ýmsum málþingum, t.d. á Egilsstöðum, þar sem sjálfbærni var aðaláherslan, á Akureyri og í Möðrudal þar sem rætt var um tækifæri eftir efnahagshrunið og í Fljótum og í Búðardal þar sem staða fámennra byggða var til umræðu.
  • Framfarafélögin, svo sem í Fjarðarbyggð, Dalvíkurbyggð og Öxarfirði, hafa stuðlað að eflingu íbúasamráðs í sínum byggðarlögum.
    Til að tryggja að þessi mikilvæga starfsemi haldi áfram og nái til enn fleiri byggða, þarf að koma á kerfisbundnu fjármagni til stuðnings íbúasamtökum á landsbyggðinni og í þorpum landsins.

Við spyrjum ykkur:

  • Hvaða skref mun framboð ykkar taka til að tryggja fjármagn til að efla framfarafélög og íbúasamtök á
    landsbyggðinni og í þorpum landsins?
  • Hefur framboð ykkar hugleitt kosti þess að koma á lýðræðislegum heimastjórnum innan
    sveitastjórnarsvæða svipað og er í Múlaþingi?
  • Mun framboð ykkar styðja að regnhlífarsamtök eins og Landsbyggðin lifi og tengd félög fái tækifæri til að leiða þróun íbúalýðræðis á landsvísu?

Með von um jákvæð svör og framfarir,

f.h. stjórnar Landsbyggðin lifi
Stefanía V. Gísladóttir, varaformaður.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *