Lög

Samþykkt á stofnfundi á Akureyri 12. júní 2001 með breytingum samþykktum á aðalfundi að Rimum í Svarfaðardal 5. júní 2004, aðalfundi að Hvanneyri, 10. júní, 2007, aðalfundi Kópaskeri 23.8.2008, á aðalfundi á Ytri-Vík 6.11.2010 og á aðalundi í Gerðubergi 20.10.2019.

Lög

Samþykkt á stofnfundi á Akureyri 12. júní 2001 með breytingum samþykktum á aðalfundi að Rimum í Svarfaðardal 5. júní 2004, aðalfundi að Hvanneyri, 10. júní, 2007, aðalfundi Kópaskeri 23.8.2008, á aðalfundi á Ytri-Vík 6.11.2010 og á aðalfundi í Gerðubergi 20.10.2019.

1. gr.

Nafn samtakanna er Landsbyggðin lifi, skammstafað LBL. 2.gr. Markmið og starfsemi

Markmið samtakanna er að vera samstarfsvettvangur fyrir félög, áhugamannahópa og einstaklinga sem hafa það að markmiði að styrkja sína heimabyggð og byggð alls Íslands. Samtökin vinna í samvinnu við staðbundin þróunarfélög, atvinnuþróunarfélög, áhugamannafélög um velferð og framgang heimabyggðar, sveitarfélög, héraðsnefndir og önnur samtök sem starfa í þessum anda. Starfið skal taka mið af valddreifingu, umhverfismálum og jafnrétti.

3. gr. Þátttaka

Samtökin eru landssamtök félaga, áhugamannahópa og einstaklinga sem vilja starfa í anda samtakanna. Einstök félög öðlast aðild að samtökunum með umsókn og að fengnu samþykki stjórnar. Einstaklingar geta á sama hátt öðlast beina aðild að samtökunum.

4. gr. Þátttökugjald
Aðilar greiða árgjald sem ákveðið er á aðalfundi samtakanna.
5. gr. Úrsögn
Aðild að samtökunum lýkur þegar viðkomandi aðili tilkynnir stjórn samtakanna það skriflega. Dráttur á greiðslu árgjalds getur haft í för með sér að aðild fellur niður.
6. gr. Reikningsár
Reikningsár samtakanna er almanaksárið.
7. gr. Aðalfundur og ákvarðanataka

Aðalfund samtakanna skal halda, annað hvert ár, fyrir lok nóvember. Hann er æðsta vald í málefnum samtakanna. Aðalfundur skal boðaður með tölvupósti, á heimasíðu samtakanna og í fjölmiðlum, minnst 15 dögum fyrir fundinn. Dagskrá með lagabreytingum skal send út á sama tíma. Stjórn ákveður stað og tíma fundarins. Aðildarfélög hafa rétt á að senda fulltrúa með atkvæðisrétti á aðalfund samtakanna miðað við fjölda meðlima, sem hér segir: Einn fulltrúa fyrir félög með 15 meðlimi eða færri, tvo ef félagatalan er 16-40 og þrjá fulltrúa ef félagatalan er yfir 40. Fulltrúar aðildarfélaganna skulu einungis hafa eitt atkvæði, en geta ekki verið með umboð frá kjörnum fulltrúum eða varamönnum. Einstaklingsaðilar mynda óformlegt félag og njóta sömu réttar og aðildarfélög og komi fleiri en hafa kjörgengi velja þeir sína fulltrúa sjálfir. Stjórn samtakanna getur kallað saman aukafund ef ástæða þykir til, t.d. ef beiðni þess efnis berst frá skoðunarmönnum samtakanna eða frá minnst 10 aðildarfélögum. Aukafund skal boða eigi síðar en 10 dögum eftir að slík beiðni berst skriflega og ákveður stjórn fundarstað. Á slíkum fundi skal einungis fjalla um erindi það sem var ástæða þess að fundurinn var kallaður saman. Fulltrúar á aðalfund eru valdir á lögmætum fundum aðildarfélaganna. Á aðalfundi skal fylgja eftirfarandi dagskrá:

1. Kosning fundarstjóra.
2. Kosning ritara.
3. Kjörbréf lögð fram og afgreidd.
4. Dagskrá lögð fram og kynnt.
5. Skýrsla stjórnar flutt og rædd.
6. Reikningar með áritun skoðunarmanna lagðir fram. 7. Reikningar skýrðir, ræddir og afgreiddir.
8. Lagabreytingar.
9. Skýrslur frá aðildarfélögum teknar fyrir og kynntar. 10. Stefnumörkun.
11. Kosning stjórnar og varamanna.
12. Kosning skoðunarmanna og varamanns.
13. Ákvörðun árgjalds fyrir næsta starfsár.
14. Önnur mál.
8. gr. Stjórn samtakanna

Stjórn samtakanna skipa sjö menn, þ.e. formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og þrír meðstjórnendur. Kjósa skal fimm varamenn þeirra. Stjórn skiptir með sér verkum. Innan stjórnar gildir einfaldur meirihluti atkvæða til ákvarðanatöku. Falli atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns úrslitum. Meirihluti stjórnar skal vera til staðar til að stjórnarfundur sé löglegur. Formaður boðar til stjórnarfunda svo oft sem þörf er á.

9. gr. Endurskoðendur

Aðalfundur velur tvo skoðunarmenn og einn til vara.

10. gr.Breytingar á samþykktum þessum.

Breytingar á samþykktum þessum er hægt að gera á löglega boðuðum aðalfundi, greiði 2/3 fundarmanna þeim atkvæði sitt.

11. gr. Að leysa upp samtökin

Hægt er að leysa samtökin upp ef 2/3 hluti fulltrúa á aðalfundi samþykkir það. Eignir samtakanna skulu renna til verkefna sem stuðla að byggðaþróun á landsbyggðinni ef aðalfundur ákveður ekki annað.

Lög LBL uppfærð 2019