Hringferð stjórnarliða í Landsbyggðin lifi – LBL félaga dagana 16. -19. september 2021

landlif2022Innlent Leave a Comment

Í tengslum við verkefnið „Our Civic Heritage – samfélagsarfleifð okkur“ var ákveðið að heimsækja Djúpavog til að fræðast um verkefnið „Hæglætisþorpið Djúpivogur – Cittaslow Djúpivogur“ og einnig að heimsækja Geisla í Gautavík til að fræðast um ræktun á hampi og þeim möguleikum sem nýting á honum bíður uppá t.d. varðandi umbúðir, te, áburð o.fl.

Ákveðið var að koma við í Nýheimum á Höfn í Hornafirði þar sem við áttum fund með Hugrúnu Hörpu Reynisdóttur forstöðumanni en við vorum samstarfsaðilar í verkefninu „Opposite Force fyrir nokkrum árum. Ræddum við m.a. um samstarfsmöguleika og hversu áhrifaríkt er að taka þátt í samstarfi með fólki frá ólíkum stöðum.

Við voru einnig með kynningu á „European Rural Parliament – Evrópska dreifbýlisþinginu“ fyrir Kristínu Hermannsdóttur, forstöðumann Náttúrustofu Suðausturlands, og Snævarr Guðmundsson sviðstjóra. Áttum gott samtal við þau sem vakti bæði forvitni og áhuga okkar á þeirra vinnu. Samtal okkar um þau áhrif sem bráðnun jökla gæti haft á loftlagsmál til framtíðar var sláandi. Þau voru sammála því sem Ómar Ragnarsson ræddi m.a. um á Dreifbýlisþingi Evrópu í Candás á Spáni í nóvember 2019.

Á leiðinni til Djúpavogs stoppuðum við á bænum Múla í Álftafirði þar sem okkur var boðið inn í kaffi, kleinur og gott spjall um LBL og byggðamál. Eftir það var okkur boðið að rölta um svæðið með húsfreyjunni. Þar sáum við m.a. ýmsar eftirlíkingar  m.a..af Hóladómkirkju og mjög frumlega götu sem kallast Kofastígur en við hann var hænsnahús með marglitum hænum og eggjum, dúfnahús, hesthús, geymsla fyrir reiðtygi  og rafvirkjaverkstæði. Einnig eru þau öflug í skógrækt og má sjá það á landinu. Framtaksemin þarna er frammúrskarandi og eftirminnileg.

Á Djúpavogi áttum við góða stund með konu sem Sigga hafði hitt í flugvél árið 2017 og haldið sambandi við. Ræddum við lengi um LBL, byggðamál og atvinnuuppbyggingu á Djúpavogi. Var ánægjulegt að heyra hvað hún var jákvæði fyrir þorpinu og atvinnustigi þess. Uppbygging er á svæðinu og er t.d. Búlandstindur að byggja verksmiðju til að framleiða frauðkassa undir fisk en hingað til hafa þeir verið innfluttir. Einnig er verið að byggja raðhús og ýmislegt áhugavert að gerast á svæðinu.

Næst hittum við Grétu Mjöll Samúelsdóttur, verkefnastjóra fyrir „Hæglætisþorpið Djúpavogur“, sem var verkefni af á vegum Djúpavogshrepp (nú hluti af Múlaþingi), m.a. til að virkja samheldni íbúanna. Tilgangur heimsóknar okkar til Djúpavogs var að kynnast verkefninu betur þar sem við í LBL völdum það sem eitt af  fimm verkefnum sem við teljum framúrskarandi í tengslum við Erasmus+ verkefnið „Our Civic Heritage“ (Samfélagsleg arfleifð okkar).

Djúpivogur er aðili að alþjóðlegu Cittaslow samtökunum og leggur áherslu á gildin sem þar eru höfð í heiðri, þ.á.m. sérkenni svæðisins og menningu þess, mannvænt og uppbyggilegt samfélag og hreint, öruggt og vistvænt umhverfi. Rauði þráðurinn í Cittaslow er: „Staldraðu við og njóttu lífsins, hraði þarf ekki að vera lífstíll.“ Hægt er að sjá merki Cittaslow á ferð um bæinn, appelsínugulann snigil sem ber þorp á kuðungnum. Söluaðilar á Djúpavogi nota snigilinn sem gæðastimpil. Hann er t.d. loforð seljanda um að vara sé upprunnin í nærumhverfi, hvort sem um er að ræða matvöru, handverk eða annað.

Í víðasta skilningi er markmið Cittaslow-hreyfingarinnar að auka lífsgæði og ánægju fólks með því að veita hnattvæðingu, einsleitni og hraðaáráttu í borgum og bæjum nútímans viðnám og heiðra þess í stað sérstöðu, vitund og sjálfbærni. Til að mæta þessu markmiði leggja stefnumið Cittaslow áherslu á verndun náttúru og menningarminja, fegrun umhverfis, umhverfisgæði, notkun á nýjustu tækni í þágu samfélagsins, eflingu staðbundinnar matarmenningar og framleiðslu, öryggi og aðgengi, sem og gestrisni, kurteisi og vinsamlegt viðmót.

Með því að gerast aðili að Cittaslow-hreyfingunni skuldbindur bæjarfélag/sveitarfélag sig til að vinna að 72 viðmiðum sem sett eru fram í sjö flokkum en þeir eru: Stefna um orku og umhverfismál, stefna um innviði, stefna um lífsgæði í þéttbýli, stefna um landbúnað, ferðamenn og handverk, reglur varðandi gestrisni, vitund og þjálfun, félagsleg samheldni og samstarf.

Fundurinn með Grétu Mjöll var bæði fróðlegur og skemmtilegur. Hún sýndi okkur poka sem unnir voru úr bolum og merktir sniglinum og eru notaðir m.a. í versluninni. Einnig fræddi hún okkur um hvernig hringrásarkerfið virkar mjög vel á Djúpavogi, rusl er flokkað mjög nákvæmlega og vert er að geta þess að foreldrafélag grunnskólans hefur opnað „verslun“ þar sem hægt er að skila inn glervöru, t.d. krukkum, bollum, könnun o.s.frv. Þau selja þetta svo áfram og ganga tekjurnar til félagsins. Að lokum fórum við einn rúnt um þorpið, skoðuðum flokkunarstæði rusls og eggin í Gleðivík.

Næst stoppuðum við í Geisla sem er fyrirtæki rekið í Gautavík í Berufirði en á þeim bæ er verið að gera tilraun með hamprækt auk þess sem þau hjónin Oddný og Pálmi reka verslun/gestastofu þar sem selt er te og krem úr iðnaðarhampi. Að auki framleiðir Pálmi tækifærisgjafir úr innfluttum hágæða harðviði. Hann vonast til að í framtíðinni geti hann notað hampplötur í framleiðsluna.

Pálmi sýndi okkur tilraunastofuna sem einnig er nýtt til framleiðslu en hún er í gömlu fjárhúsi á jörðinni. Mjög fróðlegt var að fræðast um alla þá möguleika sem hampurinn gefur. Þarna sáum við t.d. pappír úr hampi, áprentaðan, kaðal, strigapoka, krem, te, tilraun til að gera rafhlöður með því að nýta hamp í staðinn fyrir lithium eða alkalin. Pálmi sýndi okkur einnig hvernig hann nýtir vatn frá silungum til að vökva hamp en hann sagðist einnig nota það vatn til að vökva rófur, blóm og allskonar grænmeti. Aðdáunarvert var að sjá hvað dýrin sóttu til Pálma þann stutta tíma sem við stoppuðum og á það bæði við silunga og kindur. Alúðin og krafturinn sem þau hjónin leggja í hugsjón sína skilar sér.

Næsti viðkomustaður var að hitta ritari LBL á Egilstöðum. Áttum við góða stund þar sem m.a. var rætt um væntanlegan aðalfund LBL auk þess sem við nýttum tækifærið til að skipuleggja ferð til Dublin þar sem fyrsti lifandi fundur með samstarfsaðilum okkar í „Our Civic Heritage“ verður haldinn í október.

Næst hittum við formann LBL á Akureyri yfir kaffibolla. Áttum við mjög fróðlegt samtal um byggðamál m.a. í hans nærumhverfi. Farið var yfir ýmis málefni tengd aðalfundi LBL sem haldin yrði í gegnum netið í vikunni. Eftir það var haldið áfram með ferðina sem varð óvænt að hringferð. Þetta var frábær ferð og þökkum við öllum sem við hittum fyrir gott spjall og upplýsingar.

 

Sigríður og Stefanía

Landsbyggðin lifi

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *