Inverurie yfirlýsingin 2025

Hildur ThordardottirErlent samstarfLeave a Comment

INVERURIE YFIRLÝSINGIN 2025

Við, íbúar dreifbýlis, geymum lyklana að þeim lausnum sem Evrópa þarfnast.

Við erum af öllum kynslóðum og úr öllum kimum Evrópu – ung og aldin, konur og karlar, fædd hér eða nýlega aðkomin, af meginlandi og úr eyjum, af ströndum og úr dölum sem af fjöllum.

Við getum. Við erum sterk samfélög. Við sköpum nauðsynlegar lausnir fyrir líf saman á jörðinni. Við erum og við höfum það sem heldur Evrópu samkeppnishæfri, í samstöðu og með viðnámsþrótti.

Við köllum eftir viðurkenningu, stuðningi og einlægu samstarfi, ekki hindrunum sem hægja á breytingum sem við knýjum þegar áfram.

Í anda þessarar samvinnu, efld í gegnum ferla Evrópska dreifbýlisþingsins, skuldbindum við okkur til þess að halda áfram:

  • að standa vörð um hefðir okkar og menningu en styðja jafnframt nýjungar sem byggja upp viðnámsþrótt og samstöðu samfélaga sem grundvöll velmegun Evrópu, fæðuöryggi, loftslagsöryggi, félagslegri samheldni, lýðræðislegri endurnýjun og friði.
  • að vinna saman og yfir landamæri að tilgangsríkum breytingum sem samfélagið leiðir fram, í trausti getu okkar til að móta framtíðina og reiðubúin til að tjá skýrt hvað við viljum og hvernig við sjáum það fyrir okkur.
  • að vinna að sanngjarnari, grænni og lýðræðislegri Evrópu, byggða á samstöðu og virkri þátttöku.
  • að skapa vettvang þar sem kynslóðir mætast og allir geta lært, lagt af mörkum og tekið þátt í að móta þær lausnir sem dreifðar byggðir okkar þarfnast.
  • velja fjölbreyttan hóp fólks til að taka þátt í umræðu og ákvörðunum, sérstaklega þá sem venjulega er lítið hlustað á.
  • að byggja upp samfélagsdrifnar einingar til að treysta efnahagslegan grundvöll samfélagsins og skapa staðbundna verðmætasköpun og störf.
  • að efla fólk í að höndla stafræna tækni og meðtaka tæknilegu umskiptin.
  • að dýpka samstarf og samstöðu á milli þorpa, samfélaga, samtaka og landsvæða.

Við köllum ekki eftir hjálp: Við biðjum um stuðning sem samstarfsaðilar. Við þörfnumst ykkar, yfirvalda þjóða og landsvæða, til þess að fjarlægja hindranir sem halda aftur af okkur, og við að leggja fram þau bjargráð og stuðning sem þarf til að efla okkur til framkvæmda.

Á móti krefjumst við þess að yfirvöld á öllum stjórnunarstigum, á evrópskum vettvangi, meðal þjóða og svæðisbundin, vinni saman með okkur að því:

  • að koma á kerfisbundnu áhrifamati fyrir dreifbýlið á alla stefnumótun og reglugerðir.
  • að koma röddum dreifbýlisins að á öllum stigum stefnumótunar og framkvæmdar, allt frá samráði til töku ákvarðana og mats.
  • að tryggja aðgengilega, sveigjanlega og gagnsæja langtíma fjármögnun sem mætir samfélögum og styður félagsleg áhrif.
  • að binda enda á hagvaxtarkröfuna og leggja áherslu á sjálfbærni og þarfir heimahaga og efla frekar fjárfestingar sem tryggja varanlega velmegun sem allir njóti.
  • að styrkja staðbundna getu, forystu og frumkvöðlastarf á grunni tækni- og tölvufærni, en einnig með menntun og námstækifærum sem virkja sköpunargáfu og ástríðu yngra fólks til að skapa tækifæri og gera því kleift að lifa góðu lífi í dreifbýlissamfélögum sínum.
  • að auðvelda samvinnu þvert á samfélög, greinar og stofnanir og opna fyrir breytingar, nýjungar og samstöðu út yfir mörk stjórnunarsvæða.
  • að endurmóta hvernig unnið er að rannsóknum á dreifbýlinu til að tryggja að svæðið fái að leiða þær og móta og þær gagnist dreifbýlissamfélögum beint.

Við biðjum Evrópusambandið um að:

  • snúa Langtímasýn fyrir dreifbýlið og Aðgerðaáætlun dreifbýlisins í áþreifanlegar aðgerðir sem eru nægilega fjármagnaðar.
  • styðja með virkum hætti öll lönd sem leitast við að rísa upp og vinna náið með nágrannalöndum sem leita sterkra tengsla.
  • tryggja að samþætt og staðbundin dreifbýlistefna haldist í kjarna stefnumótunar EU um landbúnað, sjávarnytjar og félagsmál.
  • tryggja og bæta í fjármögnun fyrir dreifbýlissvæði, s.s. landsbyggðarframtak eins og LEADER/CLLD og „Smart Villages“ verði skylda í framtíðinni.
  • viðurkenna ekki aðeins réttinn til að dveljast áfram og snúa aftur heldur einnig rétt vinnuafls til að fara á milli og tryggja að fólk á vinnumarkaði geti nýtt störf, þjálfun og tækifæri á milli landsvæða.
  • tryggja virka beitingu Samvinnureglnanna (the Partnership Principle) til að tryggja gagnsæi stjórnsýslu í öllu framtaki með dreifbýlisáherslur.

Við biðjum yfirvöld þjóða og landsvæða að:

  • viðurkenna dreifbýlissamfélög sem handhafa og gæsluaðila mikilvægra eigna og lykilaðila hvað snertir viðnámsþrótt, viðbrögð við kreppuástandi og umbreytingu.
  • skuldbinda sig að fullu Langtímasýn fyrir dreifbýlið með skýrt mótuðum aðferðum og nægri fjármögnun lagaðri veruleika dreifbýlisins.
  • fjárfesta í uppbyggingu svæðisbundinna innviða sem auka á bæði hug- og verkvit, efla dreifbýlisfólk til frumkvöðlastarfs og sjálfbærrar þróunar.
  • stöðva brotthvarf þjónustu og mannauðs í dreifbýlinu og fámennum byggðum.
  • stuðla að jákvæðu hugarfari gagnvart lífi í strjálbýlinu og styrkja samfélagsleg tengsl til að laða að íbúa og halda fólki, hæfileikum og fjárfestingu.

Við krefjumst aðgerða. Þörf er fyrir kerfisbreytingu en ákallið eftir kerfisbreytingu má aldrei vera afsökun fyrir frestun. Tíminn fyrir aðgerðir er núna. Saman, þvert á kynslóðir og þjóðir, búum við yfir styrk til að taka ákvarðanir og framkvæma þær og móta þannig framtíðina sem við viljum og verðskuldum.

Við erum ung og aldin.

Við erum eitt og verðum að vera djörf.

Við lærum af fortíðinni, byggjum fyrir framtíðina

og miðlum áfram.

Við erum eitt, heyrið söng okkar.

Undirritað af:

ERCA – European Rural Communities Alliance

PREPARE – Partnership for Rural Europe

ELARD – European LEADER Association RYE – Rural Youth Europe

Scottish Government

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *