FRÉTTABRÉF – OKTÓBER 2024

landlif2022FréttirLeave a Comment

Landsbyggðin lifi er alltaf að eflast. Í sumar kláruðum við Fiðrildaverkefnið með Spáni og Frakklandi en það verkefni gekk út á að efla og varðveita menningararfleifð á landsbyggðinni. Kópasker var þátttakandi fyrir Íslands hönd og fór stór hópur frá Kópaskeri til Frakklands til að taka þátt í lokaviðburðinum.

Þegar eitt klárast tekur annað við. Nú erum við að fara af stað í verkefni með Finnlandi, Danmörku og Svíþjóð og fóru þrír frá okkur út til Finnlands til að undirbúa það. Í verkefninu verður skoðað hverju þarf að breyta til að auðvelda nýju fólki að flytjast út á land og þeim sem fyrir eru að búa þar áfram. Það kemur að því að fólk vill einfalda líf sitt og losna við umferðarhnúta, mengun og hávaða og flytja á stað þar sem náttúran er nær og vegalengdir styttri og auðveldari. Er atvinna aðalmálið eða eru kannski önnur atriði sem skipta meira máli nú þegar fólk getur unnið í fjarvinnu? Eins og til dæmis húsnæðismál eða nettenging? Eða jafnvel orkumál? Haldið verður málþing í tengslum við þetta verkefni einhvern tímann á næstu þremur árum.

Þá sóttum við aðalfund EURORESO í Serbíu þar sem við hittum m.a. tvær konur frá Búlgaríu og Lettlandi og úr því kom verkefnið Lady Leader sem verið er að sækja um styrk fyrir. Það er eflandi námskeið, haldið á Íslandi fyrir konur víða að úr Evrópu sem starfa með ungmennum. Það verður spennandi sjá hvort við fáum ekki styrkinn. Tveir frá okkur fóru á sænska dreifbýlisþingið. Alltaf er áhugavert að sjá hvað Svíarnir eru að gera og hvað við getum lært af þeim.

Þá fengu tvær okkar boð um að taka þátt í Active Citizens Fund uppskeruhátíð í Ríga, Lettlandi sem var mjög skemmtilegt. Og nú um daginn fengum við heimsókn frá vinum okkar í Pieriga Partnership í Lettlandi, svo það má segja að tengsl okkar við Lettland séu orðin góð og traust. Síðasta haust héldum við frábært málþing á Egilsstöðum í tengslum við aðalfundinn okkar. Efni málþingsins var sjálfbærni og er óhætt að segja að fyrirlesarar hafi nálgast efnið á margvíslegan og mjög svo fræðandi máta.

Við erum alltaf að leita að nýju fólki til að starfa með okkur og fólk þarf alls ekki að búa á landsbyggðinni til að vera með en nauðsynlegt að bera hag landsbyggðarinnar fyrir brjósti. Helmingur stjórnarinnar býr til dæmis í Reykjavík og hinn helmingurinn dreifður um alla landshluta. Það er gaman að vinna að verkefnum með öðrum landsbyggðarfélögum úti um alla Evrópu og hafa tækifæri til að heimsækja þau. Þátttaka í félaginu er ókeypis og opin öllum.

Ferðalögin eru fjármögnuð með styrkjum.

Eins viljum við gjarnan sjá fjölgun virkra framfarafélaga um land allt til að starfa með okkur. Reynslan hefur sýnt að slík framfarafélög efla samstöðu fólksins á svæðinu og þar með samfélagið allt.

Það er von okkar að fólk um allt land taki málin í sínar hendur og stuðli að framförum bæði í sínu nærsamfélagi og á landinu öllu. Hér er mynd frá heimsókn til Eymundar og Eyglóar í Vallarnesi í tengslum við málþingið og aðalfundinn fyrir austan, en við skruppum þangað í ljúffengan hádegismat.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *