Landsbyggðin lifi tekur þátt í verkefninu #VISIONS x CHANCES með VIPA – SK sem er dreifbýlisþing Slóvakíu. Verkefnið beinist að ungu fólki sem er að ljúka eða hefur nýlega lokið framhaldsskólanámi.
Reynslan í Slóvakíu er að framtíðarsýn ungmenna á svæðum sem standa höllum fæti er oft undir áhrifum frá eldri kynslóðinni sem er föst í gömlu fari fyrri stjórnarhátta. Markmið samstarfsins er að fá fólk frá samtökunum, Landsbyggðin lifi, til að fara yfir hvernig hægt er að styrkja ungt fólk og breyta viðhorfi þess til þátttöku í ákvarðanatöku og stefnumótunarferlum. Til stóð að taka þátt í dreifbýlisþinginu í október 2020 en vegna Covid-19 mun þátttaka LBL verða rafræn.
Á seinni stigum verkefnisins mun hópur frá Slóvakíu koma til Íslands þar sem haldið verður málþing um möguleika ungs fólks til að afla sér þekkingar á samstarfi við sveitarfélag og stofnanir sem sinna nýsköpun og byggðaþróun. Einnig verður framhaldsskóli heimsóttur þar sem báðir aðilar ræða tækifæri og hlutverk ungs fólks á landsbyggðinni og síðast en ekki síst verður komið á framtíðarsambandi á milli ungs fólks á Íslandi og í Slóvakíu.