Feeding Ourselves
Ráðstefna 25.-26. mars 2023
Cloughjordan Community Farm, Írlandi
Helgina 25.-26. mars 2023 var haldin ráðstefnan Fæðum okkur sjálf í vistþorpinu í Cloughjordan. Einn af skipuleggjendum ráðstefnunnar var ARC2020, sem eru samtök um ræktun og þróun landsbyggðar á vegum Evrópusambandsins og þaðan fengum við boð um að koma. Ráðstefnan er fastur liður í samvinnuverkefninu Feeding Ourselves – Open Training Network, sem á íslensku myndi útleggjast Fæðum okkur sjálf – jafningjafræðsla.
Við, Sigríður Svavarsdóttir og Hildur Þórðardóttir, flugum til Dublin á föstudagsmorgni, leigðum bíl og keyrðum suður til Nenagh þar sem við gistum í Abbey Court, ca. 18 mínútna akstur frá vistþorpinu. Það var enga gistingu að fá nær þorpinu.
Auk ARC2020 og Cloughjordan vistþorpsins tóku fjölmörg samtök og hreyfingar þátt í ráðstefnunni, svo sem Open Food Network Ireland, CSA Network Ireland, Talamh Beo, Cultivate, Desira, Centre for Co-operative Studies, Seeds for all, Environmental Pillar, Solid Network og Forum Synergies.
Ráðstefnan hófst á laugardagsmorgun á sameiginlegum morgunverði þar sem þátttakendur kynntu sig. Þátttakendur komu víða að, svo sem frá Tékklandi, Skotlandi, Norður-Írlandi, auk Íslands og að sjálfsögðu alls staðar að frá Írlandi.
Þar sem þema ráðstefnunnar var Fæðum okkur sjálf, var mikil áhersla lögð á ræktun og dreifingu matar en ýmislegt annað var á dagskránni.
Samvinnuverkefnið: Fæðum okkur sjálf – jafningjafræðsla
Fyrsti formlegi liðurinn á dagskrá var samvinnuverkefnið Feeding ourselves og hvernig hægt væri að efla það enn frekar. Að verkefninu standa 20 félagasamtök og markmiðið er að styðja og efla „endurlífgandi“ (regenerative) fæðuframtak í nærumhverfi um allt Írland með jafningjastuðningi og samstöðu. Auk árlegrar ráðstefnu eins og þessarar þar sem aðilar verkefnisins hittast og læra hver af öðrum, er hádegishittingur á netinu þriðja hvern miðvikudag í mánuði kl. 12:30 á írskum tíma.
Í kynningu sinni sagði Oliver Moore (Ollie) frá vistþorpinu, að áherslan með verkefninu væri að efla ræktun sem heilar og endurnýjar jarðveginn (regenerative agriculture) og á sama tíma að efla getu til að bregðast við áföllum (resiliency). Eins og þegar verslunum var skyndilega lokað vegna Covid takmarkana eða aðfangaleiðir þeirra hindraðar svo búðarhillur voru tómar. Þá varð ljóst að eitthvað þyrfti að gera til að tryggja fæðuöryggi og að fæðuöflunin yrði að vera eins nálægt neytendum sjálfum eins og hægt var. Og á umhverfisvænan máta.
Í þessu samhengi nefndi hann líka stríðið í Úkraínu og hvernig stríð í fjarlægu landi getur riðlað innlendri fæðuframleiðslu, ef öll ræktunarkeðjan er ekki í landinu. Til dæmis er allt korn til dýraeldis flutt inn frá Úkraínu og þegar stríðið hófst varð korn ófáanlegt eða allt of dýrt. Yfirvöld í Evrópu lögðu mikla áherslu á að skip kæmust frá Úkraínu með kornið, sem að þeirra sögn átti að flytja til landa Afríku sem þjáðust af bráðum kornskorti. Staðreyndin var hins vegar sú að kornið kom ekki nálægt Afríku heldur var flutt til Evrópulandanna, m.a. Írlands til að fóðra skepnur. Írland, að minnsta kosti, ræktar ekki kornfóður þar sem það þykir ekki arðbært. Tilfelli eins og Covid og stríðið sýna hvar veikleikarnir liggja þegar eitthvað kemur upp á.
Ruth Hegerty fjallaði því næst um verkefnið, tilurð þess, styrkleika, veikleika, tækifæri og ógnir.
Þegar verkefnið hófst þótti brýnast:
- Að breyta orðræðunni um mat og landbúnað, því bændur lægju nú undir ámæli fyrir að vilja ekki minnka áburð til að koma á móts við reglugerðir Evrópusambandsins. Þetta vekti einungis upp úlfúð gegn bændum og skipti þjóðinni upp í fylkingar. Bændur eru undirstaða samfélagsins og almenningur þarf að vera meðvitaður um mikilvægi þeirra. Neytendur eru komnir svo langt frá uppruna sínum að þeir hugsa lítið út í hvaðan maturinn kemur.
- Að geta brugðist við stefnubreytingum. Fyrir nokkrum árum var bændum sagt að þekja akrana með áburði til að ná sem mestri uppskeru og hagnaði og nú allt í einu verða þeir að minnka áburðargjöf stórlega með tilheyrandi fjárhagslegu tapi. Það verður að gefa bændum tækifæri til að finna leiðir til að bregðast við þessari skyndilegu breytingu og tileinka sér nýjar aðferðir.
- Að mikilvægt væri að eiga sæti við stefnumótunarborðið og stór samtök ættu þar meiri möguleika heldur en litlir aðilar.
- Að vera samstíga og styðja hvert annað.
(Network má þýða sem tengslanet, jafningjanet, samvinnuverkefni, samtök eða hreyfingu.)
Styrkleikar og veikleikar:
Félög innan verkefnisins væru mjög fjölbreytileg sem væri bæði styrkleiki verkefnisins og veikleiki. Styrkurinn væri breiðari þekking, en veikleikinn að þar sem þarfir hvers félags væru kannski ólíkar að ekki öllum fyndust þeir eiga heima í verkefninu. Hvort verkefnið sé hreinlega nógu yfirgripsmikið til að sinna þörfum allra. Annar styrkleiki var að þetta væri grasrótarhreyfing og hands-on, þ.e. þau eru sjálf að gera hlutina, gagnstætt að skipa öðrum ofan frá hvernig ætti að gera hlutina. Í þriðja lagi eru árlegar ráðstefnur eins og þessi meiriháttar efling fyrir verkefnið/hreyfinguna, bæði til að hrista fólk saman, svo og að deila þekkingu, reynslu, ráðum og hugmyndum.
Tækifæri og ógnir:
Tækifærin voru að stefna alþjóðasamfélagsins og rannsóknir benda til aukinnar áherslu á vistvænan landbúnað (Agroecology) og styttri birgðakeðju, sem er alveg í takt við stefnu samtakanna. En möguleg ógn að orðræðunni verði stolið og hún notuð í annarlegum tilgangi, eins og til dæmis til að hrekja bændur af jörðum sínum í stað þess að hjálpa þeim að verða vistvænni. Einnig að stefna yfirvalda verði á skjön við markmið samtakanna.
Þá var varpað fram þremur spurningum fyrir hópinn: Hvar erum við nú? Hvert viljum við fara og hvernig komumst við þangað? Þátttakendur skiptu sér síðan í hópa og ræddu þessar spurningar.
Niðurstöður:
- Mikilvægt að vera sjálfbær í matarframleiðslu. Ekki flytja inn mat frá öðrum löndum, heldur rækta sem mest heima í héraði. Halda flutningsleiðum stuttum og einföldum svo auðvelt sé að nálgast matvæli, þótt hamfarir, stríð, faraldrar eða önnur áföll ríði yfir.
- Mikilvægt að standa saman og styrkja matarbandalögin eða mynda ný þar sem þau vantar.
- Að neytendur hefðu aðgang að vörum á sanngjörnu verði og að bændur fengju sanngjarnt verð fyrir sína vöru.
- Það væri mikið af ónýttu landi sem hægt væri að nýta betur. Mannfólkið þarf að hugsa um landið og auðvelt að koma á jákvæðum breytingum, en að sama skapi líka auðvelt að hafa neikvæð áhrif á landið.
- Mikilvægt atriði sem kom upp var, að í staðinn fyrir að reyna að sannfæra stjórnmálafólk um að breyta stefnunni í átt að meiri sjálfbærni, væri tíma og peningum miklu betur varið í að hafa áhrif á fólkið sjálft, neytendur og framleiðendur. Það væri ekki fyrr en almenningur væri kominn á þessa skoðun, að stjórnmálamenn tækju þá við sér til að ná í atkvæði.
- Í hamförum (eins og Covid) felast alltaf frábær tækifæri. Nú er tækifæri til að breyta hugarfarinu og sveigja frá verksmiðjuframleiðslu til smábændaframleiðslu. Það væru hvort sem er alltaf einhver afskipti af matarframleiðslu og það væri alveg eins auðvelt að hafa jákvæð afskipti, sem myndu þá styðja smærri framleiðendur. Til að þetta gangi eftir þarf að breyta hegðun kaupenda.
- Annað vandamál var að landið byggðu aðallega eldri bændur og ungir bændur ættu erfitt með að komast að eða kaupa land. Það þýddi að eldri bændur væru ekki að koma þekkingu og reynslu áfram til yngri bænda heldur þyrftu yngri bændur að leita þekkingar utanfrá sem þýddi áhersla á verksmiðjubúskap og þar með minni seiglu þegar áföll steðja að.
- Efla stolt af írskri matarframleiðslu. Það væri gert með því að efla meðvitund neytenda um hvaðan maturinn kemur.
- Efla þátttöku bænda í umræðunni og framtíðarstefnumótun. Þótt þessi Evrópureglugerð um minni tilbúinn áburð hafi ekki verið enn innleidd á Íslandi mun koma að því og þessi ágreiningur rísa hér á landi eins og á Írlandi og annars staðar í Evrópu. Það er því mikilvægt fyrir okkur að vera á undan umræðunni og efla meðvitund meðal almennings um þennan fyrirsjáanlega ágreining og jafnvel finna leiðir áður en vandamálið magnast.
- Efla hringrásarhagkerfi með endurnýtingu og umbúðalausri sölu.
- Okkur er sagt að það sé bara ein leið. „Only one game in town.“ Hið rétta er að það eru fleiri leiðir og þessi samtök eru að benda á eina slíka. Nauðsynlegt er líka að gæta hófs og forðast öfgar sem fæla fólk frá. Samtökin eru enn frekar ósýnileg og þörf á að fá fleiri í lið með þeim.
- Lykilorðin hér eru „community led“, þ.e. sprettur úr samfélaginu og stjórnað þaðan.
- Eins vantar menntun um næringu. Hvað er góð næring? Er það fullt af eiturefnum eða er það hreinn matur? Matur sem er týndur af trjánum/uppskorinn löngu áður en hann er þroskaður til að flytja langa leið, eða matur sem er týndur/uppskorinn fullþroska í nágrenninu? Sykur, hvítt hveiti, forunninn matur?
- Ein hugmynd var að opna bændabýli meira fyrir almenningi, hafa opna daga, uppskeruhátíðir. Að samtökin verði brú á milli ræktenda og neytenda. CSA (landbúnaður með samfélagsstuðningi) gerir einmitt ráð fyrir slíku, að neytendur hjálpi til við uppskeruna og svo sé sameiginlegur málsverður á eftir, þannig að neytendur séu í beinu sambandi við ræktendur.
- Creating spaces for awkward conversations – skapa rými fyrir vandræðalegar samræður. Í þessu samhengi má benda á lið sem var á sunnudeginum undir nafninu Bara breytingar. Bændum úr nágrenninu, sem hingað til höfðu ræktað á hefðbundinn máta þ.e. ekki lífrænt, var boðið að koma og segja frá áhyggjum sínum og sinni sýn á breytingarnar. Það er mikil spenna milli umhverfissinna og bænda og þetta var liður í að heyra sjónarmið bænda án þess að koma með mótrök.
Sex málstofur
Eftir hádegi var boðið upp á sex málstofur.
- Landbúnaður með samfélagsaðstoð (CSA-Community Supported Agriculture). Hér leiddu írsku CSA samtökin umræðu um tækifæri og vandamál þessa samstarfs milli ræktenda og neytenda í nærumhverfi. Þessi leið hefur leitt saman smáa ræktendur og neytendur á einstakan máta og gerir neytendur meðvitaðri um hvað liggur að baki fæðunnar. Neytendur geta fjárfest í ræktuninni eða borgað vikulega eða mánaðarlega fyrir mat og fleira í áskrift. Neytendur hjálpa líka til þegar mikið álag er, eins og á uppskerutímum, sem hjálpar þá við að halda verðinu niðri, því ræktandinn þarf ekki að ráða auka starfsfólk.
- Fjölbreytni í landbúnaði. Hér var sérstaklega skoðað hlutverk kvenna í landbúnaði og hvernig er hægt að tryggja rétt allra bænda og landbúnaðarstarfsmanna. Samtökin Talamh Beo vilja að ákvarðanir sem varða landbúnað og matarframleiðslu séu í höndum fólksins þ.e. neytenda og bænda, ekki yfirvalda. Að fólkið sjálft hafi sjálfsvald í matar-, eldsneytis- og trefjamálum (Food, fuel and fiber sovereignty). Einn af félögum Talamh Beo stjórnaði umræðunni en samtökin styðja konur í landbúnaði.
- Stefnumótun með Ollie (Oliver Moore). Skoðað var hvernig aðrar sambærilegar grasrótarhreyfingar gætu verið að vinna að því sama og að hvaða leyti þeir sem móta stefnuna ofan frá eru í takt við þær.
- Textiles from Seed to Fibre. Vefnaðarvara – frá fræi til trefja. Við völdum þessa málstofu og það var mjög athyglisvert að heyra frá þeim sem voru að rækta hamp og hör á Írlandi. Iðnaðarhampur er enn óleyfilegur svo ekki er hægt að fá fjárhagslegan stuðning, en það er samt verið að rækta hann. Líklega mun banninu verða aflétt á næstu árum.
Þau töluðu líka um hvernig yfirvöld höfðu sóað fé í skýrslur. Til dæmis var eytt miklum tíma og fé (100.000 evrum) í að safna saman hugmyndum um hvernig væri hægt að nýta írsku ullina. Eftir 1,5 ár kom út lítil skýrsla sem 10 ára barn hefði getað gert og síðan ekkert meira gert. Þau hefðu getað skrifað skýrsluna sjálf og getað notað peninginn í eitthvað uppbyggilegt. Írska ullin er ekkert nýtt. Meira að segja írsku ullarpeysurnar eru gerðar úr aðfluttri ull, því írska ullin þykir svo hrjúf eins og sú íslenska. Tveir af þátttakendum málstofunnar höfðu notað ullina til að einangra þakið í húsinu sínu.
Í sambandi við hörinn var rætt um hversu sorglegt það er að við þurfum að finna út hvaða afbrigði er best að rækta fyrir föt og hvernig er best að lita efnið. Þetta vissu forfeður okkar en er nú tapaður fróðleikur. Það þýðir ekkert að biðja um stuðning frá yfirvöldum, heldur þarf að læra frá konum sem eru sjálfar að prófa sig áfram, eins og ein þarna sem var meira að segja að prófa að spinna og vefa úr netlutrefjum.
Þátttakendur töldu nauðsynlegt að setja á fót samtök fyrir trefjar (hamp, hör, ull ofl.) til að fá fjárhagslegan stuðning frá yfirvöldum. Tilhneiging yfirvalda er að láta opinbert fé til stórfyrirtækja sem skaða umhverfið meira en bæta en það þarf að breyta viðhorfi yfirvalda og bjóða upp á annan umhverfisvænni valkost.
- Digitalisation – Open Food Network (OFN). Opinn hugbúnaður þar sem ræktendur geta selt vörur sínar beint til neytenda og neytendur pantað beint frá býli. Evonne Boland hjá OFN leiddi umræður um loftslagsaðgerðir og nærfæði (fæðuræktun í nærumhverfi).
- Jarðvegur og lífræn fjölbreytni (Soil and Biodiversity). Félagar frá Talamh Beo deildu þeirra niðurstöðum um jarðvegsfjölbreytni og EIP verkefnið. Árið 2022 leiddu samtökin verkefni með 16 býlum um allt Írland, með fræðslu til ræktenda og alls kyns rannsóknum á jarðvegi og mismunandi næringu. Þetta gaf góða þekkingu á hvernig er hægt að hefja ræktun í næringarsnauðum jarðvegi. Þessi býli eru nú hugsuð sem viskubrunnar fyrir nærliggjandi býli, til að koma þekkingunni áfram.
Landsbyggðin í Evrópu tekur til eigin ráða
Þegar málstofunum lauk var sameiginlegur netfundur með fólki alls staðar að frá Evrópu. Fundurinn hét Landsbyggðin í Evrópu grípur til aðgerða (Rural Europe Takes Action) og heyrðum við fjórar frásagnir frá nokkrum stöðum í Evrópu. Allar þessar sögur eru hluti af samnefndri bók Rural Europe Takes Action – No more business as usual.
Bændasamfélagið Plessé í Frakklandi
Í Plessé í Frakklandi búa um 5.000 manns og helsti atvinnuvegurinn er búfjárrækt. Á síðustu árum ákvað bæjarstjórnin í Plessé að sporna gegn geigvænlegri þróun í átt að verksmiðjubúskap og styðja við smábændur í staðinn. Í Frakklandi er landbúnaður ekki á sviði sveitarstjórna en fyrirséð var að 40% bænda á svæðinu myndu bregða búi á næstu árum og land þeirra líklega lenda í klóm kapítalismans. Kosnir fulltrúar Plessé gátu ekki setið aðgerðalausir og horft upp á gott ræktunarland hverfa undir einkaaðila, matarframleiðslu hverfa af svæðinu og bæjarlífið flosna upp. Þess í stað ákváðu þeir að halda í hvert einasta hinna 92 býla á svæðinu (10.400 hektarar), bjuggu til PAAC, Stefnu fyrir staðbundinn landbúnað og fæðu og settu hámarksverð sem hægt var að selja landið á. Stofnuð var nefnd með 12 fulltrúum og 26 sjálfboðaliðum úr samfélaginu, bændum og öðrum, til að fylgja stefnunni eftir.
Markmiðið er að styðja við bændur, bera virðingu fyrir starfi þeirra og verja staðbundna fæðuöflun (landbúnað og ræktun). Þeir vildu gera orðræðuna um bændur jákvæðari og skapa jákvæðara umhverfi fyrir bændurna. Þeir hvetja nýja bændur til sjálfbærni og að hafa sem mesta fjölbreytni, þ.e. framleiða vörur í smáum stíl sem vantar í samfélagið.
Til dæmis eru spildur/býli innan héraðsins seldar fyrir 2.000 evrur að meðaltali, leyfilegt hámark er 3.000 evrur sem er langt undir markaðsverði. Þetta á að tryggja að nýir smábændur geti tekið við af þeim sem hætta.
Það eru íbúarnir sjálfir sem fylgja PAAC eftir en sveitarfélagið gerir þeim það kleift með opinberri stefnu sinni. Hægt er að fjármagna kaup á býlum og húsnæði á Loire Atlantique svæðinu þar sem Plessé er, úr tilteknum sjóði fyrir svæðið sem allir íbúar landsins borga skatt í. Sjóðurinn gerir bæjarfélaginu jafnframt kleift að kaupa upp býli ef engir kaupendur eru fyrir hendi og stofnaður hefur verið „bæjarlandsbankinn“ (municipal land bank) til að halda utan um eignirnar sem sveitarfélagið á.
Að auki tryggir sveitarfélagið að skólamötuneytin á svæðinu kaupi mat af bændum á svæðinu. Þannig tryggja þeir bændunum örugga sölu og tekjur og flutningsleiðir eru stuttar. Börnin og starfslið skólanna fá góðan og vandaðan mat, í stað ódýrrar vítamínsnauðrar verksmiðjufæðu sem kæmi langt að.
Markmið bæjaryfirvalda er að skipta smám saman yfir í lífræna ræktun, ekki síst til að fá betra vatn, en gefa bændum tíma til að aðlagast breyttum aðstæðum.
Ef við viljum hafa bændur í framtíðinni er nauðsynlegt að varðveita ræktunarland. Þess vegna hafa bæjaryfirvöld sett hámarksverð á sölu ræktunarlands á svæðinu og skilyrði er að kaupandi haldi áfram ræktun eða búskap á landinu.
Hingað til hefur sveitarfélagið Plessé ekki rekist á neinar hindranir. Þvert á móti hafa önnur sveitarfélög sýnt hugmyndinni áhuga. Bæjarfélög hengja sig oft á hvað sé innan þeirra valdsviðs, en eins og þetta dæmi sýnir, geta bæjarfélög sýnt frumkvæði til að viðhalda lífsgæðum fólksins. Bæjarfulltrúar verða líka að vera íbúar og ekki bara hugsa um endurkjör.
Fræsamtökin á Balkanskaga (Balkan Seeds Network)
Annað átak gegn yfirráðum kapítalismans eru fræsafnararnir á Balkanskaga. Í stað þess að bændur þurfi að kaupa einnota erfðabreytt fræ frá Monsanto á hverju ári hafa félagar samtakanna einsett sér að vera sjálfbærir í fræmálum. Samtökin voru stofnuð árið 2020 og ná nú yfir Albaníu, Bosníu og Herzegovínu, Búlgaríu, Króatíu, Kýpur, Grikklandi, Norður Makedóníu og Serbíu. Þau njóta stuðnings austurrísku fræsafnarasamtakanna Arche Noah. Í samtökunum vinna saman plöntuvísindamenn, grasrótin, óhagnaðardrifnir fræbankar, bændur, garðyrkjumenn, rannsóknarstofnanir og menntastofnanir.
Þetta tryggir ekki einungis fjölbreytni í landbúnaði heldur líka sjálfstæði bændanna og skapar tækifæri til að efla hefðbundinn eða lífrænan mat fyrir neytendur og bændur. Staðbundnar og hefðbundnar plöntur hafa aðlagast umhverfinu í árþúsundir og eru miklu betri í baráttunni við loftslagsmál, fæðusjálfstæði og fæðuöryggi en genabreyttar geldar plöntur.
Samtökin vilja efla lífrænan landbúnað og vistræktun (agroecology). Þau eru á móti erfðabreyttum plöntum sem eru sérhannaðar til að þola eitraðan áburð sem er skaðlegur mönnum og dýrum. Þau eru á móti því að bændur séu háðir því að kaupa fræ á hverju ári því plönturnar framleiða ekki fræ. Enginn á einkarétt á lífi og sérstaklega ekki stórfyrirtæki sem vilja bola smábændum í burtu. Þau styðja alla bændur og réttindi þeirra og vilja tryggja rétt þeirra í stefnumótunarsamræðum á landsvísu.
Samtökin byggjast á jafningjafræðslu og Arche Noah sem hafa haldið netnámskeið um fræstefnu Evrópusambandsins og fræhreinlæti.
Matarmiðstöðvar og netsíður með landbúnaðarafurðir
Þriðji liðurinn undir Evrópa grípur til aðgerða eru matarmiðstöðvar og netsíður þar sem neytendur geta keypt beint af bændum. Open Food Network er ein slík heimasíða. Önnur síða er DESIRE sem vistþorpið Cloughjordan rekur einmitt. Á sunnudeginum kynntumst við nánar þeirri síðarnefndu.
Konur í landbúnaði
Janet fjallaði um samtökin Talamh Beo sem hún hefur starfað með. Það er lögð áhersla á fæðusjálfstæði, sjálfbærni og lífræna ræktun en líka að jafnan rétt kynjanna í öllum ráðum og verkefnum samtakanna. Samtökin gerðu könnun meðal kvenna í landbúnaði til að heyra um áhyggjuefni þeirra. 13% býla á Írlandi eru í eigu kvenna en að minnsta kosti 25% starfsliðsins eru konur. Við bætist hið djúpstæða menningarlega misrétti milli kvenna og karla. Mikilvægt að konur hafi tækifæri til að ræða saman og læra af hver af annarri.
Landsbyggð Írlands tekur til sinna ráða
Næsti liður á dagskrá var landsbyggð Írlands tekur til sinna ráða. Fjórir bændur úr nágrenninu sátu fyrir svörum. Einn þeirra ræktaði Heritage grain, hefðbundið korn, í stað þess erfðabreytta. Hann ræktaði líka vetrarrúg og vetrarbygg. Markmiðið var að varðveita gömlu afbrigðin, þótt það væri ekki eins arðbært, eins og við Íslendingar viljum varðveita íslenska kúakynið, íslenska hundinn, íslensku hænurnar o.s.frv. Vetrarbyggið þeirra gæti verið sama byggið og ræktað er hjá Móður Jörð. Alla vega er hitastigið talsvert hærra á Írlandi og veðrið þarna í lok mars eins og sumar á Íslandi.
Eitt kom fram þarna, að almenningur vill styðja bændur og það er lygi að almenningur vilji losna við bændur, eins og umræðan er stundum.
Um kvöldið var sameiginlegur málsverður með dýrindis grænmetisfæði og kökum, lifandi tónlist, bjórsmökkun og ljóðalestri.
Sunnudagur.
Eftir morgunmat var um fjórar málstofur að velja. Ein var „Bara breytingar“ þar sem bændur fengu tækifæri til að viðra áhyggjuefni sín og sína hlið. Flestir þátttakendur ráðstefnunnar eru umhverfissinnar, mjög umhugað um lífræna ræktun og hreinan jarðveg, og þeim fannst gott að heyra hvað bændur vildu jörðinni vel, alveg eins og þeim sjálfum.
Önnur var verkleg þar sem þátttakendur máttu lita ull eða annað efni sem var í boði. Við völdum það ekki svo ég veit ekki hvaða efni var í boði.
Þriðja var kynning á Syntropic Agroforestry, sem gengur út á að staðsetja hverja plöntu þannig að hún dafni sem best. Astrid, sem sá um þetta, var mjög áhugaverð kona sem kvaðst búa til öll sín föt sjálf, spinna og vefa efnið, lita og sauma, prjóna eða hekla. Það var hún sem var að gera tilraunir með netlutrefjar í fatnaði.
DESIRA – vefsíða með afurðir bænda
Við völdum stafræna væðingu landsbyggðarhagkerfis, þar sem bændur selja afurðir sínar á vefsíðum, neytendur panta beint og milliliðir eins og vistþorpið sjá um samskiptin. Bændur afhenda vörurnar í vistþorpið og þar er vörunum skipt í körfur neytenda sem síðan eru sóttar samdægurs.
Desira er vefsíðan þeirra á Írlandi og er byggð á The Open Food Network sem er ókeypis hugbúnaður og aðgengilegur um allan heim. Við á Íslandi gætum nýtt hann með því að stofna okkar eigið lén.
Markmiðið er að versla sem mest í nærumhverfi og hætta að flytja matvörur um hálfan hnöttinn. Í þessu samhengi var minnst á að hægt er að nota Fab Labs til að búa til alls kyns smáhluti, til dæmis í þrívíddarprentara, og það er einmitt einn svona Fab Lab í húsnæðinu sem vistþorpið hefur til umráða fyrir ráðstefnur eins og þessa og fyrir markaðsdagana, þegar bændur afhenda vörur og neytendur sækja þær.
Það er ekki markmið stafrænu matarsíðanna að koma í staðinn fyrir verslanir, heldur einungis að stytta flutningsleiðir og ekki síður vera sjálfstæð í fæðuöflun ef eitthvað kemur upp á eins og faraldur eða stríð. Ekki er krafist jafnmikilla umbúða eins og í verslunum og ræktandinn fær meira í sinn hlut þegar milliliðunum er fækkað. Desira tekur 20% þóknun fyrir söluna og þar af fer 2,5% til þeirra sem hönnuðu forritið og viðhalda því. Neytandinn borgar til Desira og Desira greiðir bændum áfram, að frádregnum 20%. Desira borgar ekki virðisaukaskatt, heldur standa bændur skil á sínum sköttum.
Nauðsynlegt er að halda áfram að kynna vefsíðuna og einn varpaði fram þeirri hugmynd að fara þar sem foreldrar eru aðgerðarlausir að bíða eftir börnunum sínum í tómstundaiðkun. Fara þar sem fólkið er og kynna síðuna.
Einnig kom fram nauðsyn þess að auðvelda ungu fólki að kaupa land og geta ræktað sitt eigið. Ekki allir vilja búa í borg og það er aukinn áhugi á að búa í sveit.
Matarheimasíðan byrjaði 2015 í Ástralíu og þau byrjuðu með þetta árið 2019 á Írlandi. Það þarf ekki mikið starfslið og helsti kostnaður þeirra var leiga fyrir húsnæðið.
Rætt var um að veitingastaðir á landsbyggðin leituðust við að nálgast hráefni af staðnum, frá bændum í nágrenninu. Til dæmis var einn bóndi sem hafði áður verið með CSA, ræktun með samfélagsstuðningi. Hann hætti með CSA og gerði samning við veitingastað og nú fer öll hans framleiðsla beint til veitingastaðarins.
Einnig var rætt um að aðilar gætu fyllt í eyður í fæðuúrvali með smáfyrirtækjum (microbusiness). Það þurfa ekki allir að stórgræða á öllu. Stundum er gaman að gera eitthvað af því bara, eins og til dæmis lífrænar sápur.
Í Cleveland, Ohio í Bandaríkjunum var gert átak og ákveðið að sjúkrahús skyldu kaupa mat af bændum á svæðinu. Þetta var gert til að halda peningunum á svæðinu, í stað þess að senda stórar fjárhæðir til bænda í öðrum fylkjum. Betra að efla ræktun í fylkinu sjálfu eða á svæðinu. Þetta heitir á ensku Community Wealth Building og þetta er eitthvað sem við getum gert á Íslandi. Beina viðskiptunum frekar að íslensku, eða að framleiðendum í nágrenninu, frekar en að kaupa allt á Amazon eða Ali Express, sem eru eingöngu ágóðadrifnir og hætta með vöru um leið og hún er hætt að skila hagnaði.
Í sambandi við matarsíðuna geta bændur líka búið til eigin aðgang og séð um allt sjálfir. Samið um afhendingu sjálfir.
RED gardens
Síðasti liður á dagskrá var aftur fjögur atriði til að velja um. Landsbyggðarstefnumótun, Hreyfingarefling, Samfélagsfræbanki eða RED gardens. Við völdum það síðastnefnda því veðrið var gott og við búnar að fá nóg af enskum fagorðaflaumi.
RED stendur fyrir research, education and development (rannsóknir, fræðsla og þróun). Bruce Darrell er kanadískur arkitekt sem hætti störfum til að helga sig rannsóknum á ræktun. Markmið hans er að efla fólk í þeirri trú að það geti ræktað sjálft og bendir á ýmsar leiðir til þess. Hann er með eigin YouTube rás og hefur síðustu sjö ár gert myndband á fimm daga fresti.
Hann er með nokkur beð þar sem hann gerir tilraunir með ræktun í t.d. moltu eingöngu ofan á pappa, eða venjulegri mold með íbættum köfnunarefnum, raðar plöntunum ólíkt, o.s.frv. Hann er líka að gera tilraunir með moltugerð og ýmsar tegundir af fræjum, þ.á.m. gamaldags (heritage), blendingsafbrigði og sjálffrjóvgað.
Tíminn leið alltof fljótt og kominn tími til að ljúka ráðstefnunni. Skipuleggjendur héldu smá tölu til að draga saman það markverðasta og óhætt er að segja að allir þátttakendur hafi verið himinlifandi.
Niðurstaða
Það er margt sem Landsbyggðin lifi getur tekið úr þessu. Til dæmis uppbyggingu innan nærsamfélagsins og efla auðlegð samfélagsins (Community Wealth Building), þ.e. að halda fjármunum innan svæðisins. Eins og áður sagði, ákváðu yfirvöld bæði Cleveland og Plessé og eflaust fleiri staða í heiminum að mötuneyti sjúkrahúsa, skóla og vinnustaða á landsbyggðinni skyldu kaupa af bændum í nágrenninu. Hægt væri að fjalla um þetta á ráðstefnunni okkar í haust í tengslum við aðalfundinn og finna fleiri dæmi.
Dæmið frá Plessé er líka sérlega áhugavert, hvernig yfirvöld tóku málin í sínar hendur í stað þess að sitja aðgerðarlaus og horfa á allt fólkið flytja burtu úr heimabyggð. Með því að setja hámarksverð á land á svæðinu var tryggt að nýir bændur kæmu í stað þeirra sem hættu búskap. Hér er ekki áherslan á magn heldur gæði, sem við þurfum líka að tileinka okkur hér á landi.
Það er mikilvægt að auðvelda ungu eða nýju fólki að kaupa land á landsbyggðinni og mikilvægt að sveitarfélög átti sig á að þau geti tekið málin í sínar hendur og þurfi ekki að bíða eftir að ríkisstjórnin ákveði að efla landsbyggðina.
Gott væri að skrifa nokkrar greinar um þessi mál og birta á heimasíðunni okkar, Bændablaðinu og í fleiri fjölmiðlum.
Reykjavík 31. mars 2023.
Hildur Þórðardóttir
Sigríður Bára Svavarsdóttir